Almennir skilmálar YAY

Almenn ákvæði

Skilmálar þessir gilda um kaup á vöru eða þjónustu í gegnum snjallforritið YAY (hér eftir „YAY appið“) sem og aðrar tengdar hugbúnaðarlausnir og forrit (saman eru YAY og tengdar lausnir hér eftir kallaðar „YAY-lausnir“) sem Yay ehf. rekur og byggðar eru á snjallforritinu YAY. YAY er í eigu Yay ehf., kt. 671218-0940, Lágmúla 5, 108 Reykjavík (hér eftir YAY). Skilmálarnir skilgreina réttindi og skyldur YAY annars vegar og notanda hins vegar. Hafi skilmálar þessir ekki verið samþykktir við nýskráningu inn á YAY-lausn teljast þeir samþykktir við fyrstu kaup á vöru eða þjónustu. Með því að samþykkja skilmálana lýsir notandi því yfir að hann hafi lesið, skilið og samþykkt skilmálana í heild sinni.

„Söluaðili“ er fyrirtæki sem býður vöru eða þjónustu til sölu í YAY appinu.

„Kaupandi“ er einstaklingur sem kaupir gjafabréf í YAY appinu. Kaupandi verður að vera a.m.k. 16 ára. Þegar að kaupandi er einstaklingur sem stundar ekki viðskipti eða aðra athafnastarfsemi eiga lög um neytendakaup nr. 48/2003 við. „Kaupandi“ getur líka verið fyrirtæki en lög um þjónustukaup nr. 42/2000 eiga þá við.

„Notandi“ er hver sá sem notar YAY appið og á bæði við um þann sem kaupir gjafabréfið og þann einstakling sem fær gjafabréfið.

YAY selur gjafabréf vegna kaupa á vöru eða þjónustu sem veitir kaupanda rétt til að fá vöru eða þjónustu afhenta frá söluaðila. YAY ber ekki ábyrgð á gæðum vöru eða þjónustu sem söluaðili veitir. Þegar notandi notar gjafabréf í gegnum YAY appið hjá söluaðila er hlutverki YAY lokið. Þá tekur gildi samningur milli notanda og söluaðila sem þar með yfirtekur skyldur YAY gagnvart notanda og skulu þá lög um þjónustukaup nr. 42/2000 og lög um neytendakaup nr. 48/2003 gilda um réttarstöðu samningsaðila þegar sérstökum ákvæðum þessara skilmála sleppir.

YAY býður jafnframt upp á þá þjónustu að dreifa gjafabréfum fyrir önnur fyrirtæki sem notendur geta notað í gegnum YAY appið. Slík gjafabréf eru ekki YAY gjafabréf og um þau gilda skilmálar viðkomandi fyrirtækis. YAY ber ekki ábyrgð á því ef að þriðji aðili uppfyllir ekki skyldur sínar skv. slíku gjafabréfi. Ef að notandi getur ekki innleyst gjafabréfið, s.s. vegna gjaldþrots fyrirtækis, ber YAY ekki ábyrgð á að innleysa gjafabréfið og ekki er unnt að nota inneignina hjá öðrum samstarfsaðilum YAY.

Skilyrði fyrir notkun YAY

Notandi ábyrgist að upplýsingar sem skráðar eru í YAY appið séu alltaf réttar og varði hann sjálfan. Notandi samþykkir að veita ávallt nýjustu og nákvæmustu upplýsingar um sig fyrir öll kaup á gjafabréfum sem gerð eru í YAY appinu, þ.á m. netfang og kreditkortanúmer og gildistíma þess, svo að YAY geti klárað viðskiptin og haft samband, sé þess þörf. Það er því alfarið á ábyrgð notanda að uppfæra upplýsingar um sig í YAY appinu þegar og ef þörf krefur.

Sérstök athygli er vakin á því að notanda er einungis heimilt að tengja eigin greiðslukort við lausnina. Kaupandi gjafabréfsins og korthafi skal því ávallt vera sami aðili.

Þrátt fyrir ofangreint getur annað átt við þegar um fyrirtækjakort er að ræða. Í þeim tilvikum getur kaupandi tengt kreditkort lögaðila við appið. Það er hins vegar forsenda fyrir notkun á fyrirtækjakorti að forsvarsmaður lögaðila hafi sérstaklega samþykkt notkun á kortinu með virkjunarkóða.

YAY áskilur sér allan rétt til að hafna umsókn um notkun á YAY appinu án þess að tilgreina ástæðu.

Fyrirvari

YAY áskilur sér rétt til verðbreytinga með tveggja mánaða fyrirvara. Með áframhaldandi notkun á YAY appinu eftir að breytingarnar hafa tekið gildi samþykkir notandi uppfærða skilmála. Allar upplýsingar og verð eru birt með fyrirvara um innsláttarvillur. YAY áskilur sér rétt til að hætta við pöntun komi í ljós að varan sé vitlaust verðmerkt eða uppseld.

Listi yfir söluaðila sem eru í samstarfi við YAY getur tekið breytingum og er listi yfir núverandi samstarfsaðila ávallt aðgengilegur á www.yaymoments.com.

Aðgangur notanda

Aðgangur notanda að YAY appinu skal aðeins vera notaður af honum sjálfum og er notanda með öllu óheimilt að deila aðgangsupplýsingum með þriðja aðila eða á annan hátt veita þriðja aðila aðgang að persónulegum aðgangi sínum að YAY appinu. Notandi skal tryggja leynd aðgangsupplýsinga sinna og ber ábyrgð á hvers kyns tjóni sem kann að hljótast af því að aðgangsupplýsingar rati til þriðja aðila, hvort sem það er með vitneskju notanda eður ei.

Notandi sem auðkennir sig með réttri auðkenningarleið er álitinn réttur eigandi viðkomandi notendaaðgangs að YAY appinu og hefur einungis sá aðili heimild til að framkvæma aðgerðir á þeim notendaaðgangi í YAY appinu. Notandi ber ávallt fulla ábyrgð á öllum aðgerðum sem staðfestar hafa verið með framangreindum hætti í YAY appinu.

Notanda er með öllu óheimilt að nota YAY appið:

  • til að áreita aðra notendur YAY appsins eða þriðju aðila
  • til að ná í fjármuni eða færa fjármuni með óheiðarlegum eða saknæmum hætti (eða aðstoða aðra við að gera slíkt)
  • til að framkvæma aðgerðir sem brjóta gegn skilmálum þessum, lögum og/eða stjórnsýslufyrirmælum
  • til að eiga frumkvæði að, eða hafa milligöngu um, óumbeðin samskipti við einn eða fleiri notendur YAY appsins (e. spam)
  • til að falsa, eyðileggja, breyta, skemma, trufla eða á nokkurn annan hátt, hafa áhrif á öryggi og öryggisþætti appsins í þeim tilgangi að skoða eða misnota upplýsingar sem eru notanda óviðkomandi. Verði notandi var við veikleika í öryggisþáttum ber honum að tilkynna YAY um það án tafar
  • og/eða til að brjóta gegn höfunda- eða hugverkarétti YAY

Verði YAY vart við ofangreinda notkun á appinu áskilur YAY sér rétt til að læsa fyrirvaralaust aðgangi viðkomandi notanda og rifta um leið samningi þessum.

Riftun/Uppsögn

YAY áskilur sér einhliða rétt til að loka fyrir aðgang notanda að YAY appinu ef notandi brýtur í bága við skilmála þessa eða grunur um misnotkun eða ranga notkun af einhverju tagi kemur upp.

Hafi YAY rift samningi við notanda vegna athæfis sem varðar við lög eða stjórnvaldsfyrirmæli áskilur YAY sér rétt til að leita réttar síns eða kæra viðkomandi til lögreglu. Slíkur réttur er einnig til staðar vakni grunur um saknæma háttsemi jafnvel þó svo að YAY ákveði að rifta ekki samningi við notanda. Hið sama á við þegar YAY er skylt að framfylgja reglum um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Um varðveislu upplýsinga um notanda og greiðslusögu hans fer skv. Persónuverndarstefnu YAY. Ópersónugreinanleg gögn um notkun notanda í appinu varðveitast áfram ótímabundið.

Auðkenning

Til að uppfylla reglur um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka gæti verið nauðsynlegt að staðfesta auðkenni viðkomandi notanda. Ef að notandi veitir ekki fullnægjandi sönnun á auðkenni sínu getur YAY ekki samþykkt notandann sem viðskiptavin.

Höfunda- og hugverkaréttur

Samningur þessi hefur ekki í för með sér neins konar yfirfærslu á höfunda- eða hugverkarétti frá YAY til notanda.

Allt innihald YAY appsins og vefsvæðis er í eigu YAY, eða eftir atvikum samstarfsaðila YAY, þar með talið vörumerki, texti, hönnun, grafík, ljósmyndir, myndir og ritstýrt efni er varið höfundarétti.

Notanda er einungis heimilt að nýta sér upplýsingar eða efni af vefsíðu YAY eða YAY appsins til persónulegra nota í samræmi við skilmála þessa.

Trúnaður

Notendum er heitið fullum trúnaði um allar þær upplýsingar sem notendur gefa upp í tengslum við viðskiptin. YAY vinnur með þriðja aðila sem hýsir þau gögn notenda sem YAY vinnur með. Að auki hafa þriðju aðilar aðgang að gögnunum í þeim tilgangi að veita YAY þjónustu. Slíkar upplýsingar kunna því að vera afhentar þriðju aðilum sem eru vinnslu- og/eða ábyrgðaraðilar fyrir hönd YAY.  Frekari upplýsingar um vinnslu þriðju aðila er að finna í Persónuverndarstefnu YAY sem er aðgengileg á www.yaymoments.com. Upplýsingar verða ekki afhentar þriðja aðila undir neinum öðrum kringumstæðum, nema að beiðni notanda eða vegna lagaskyldu.

Lög og varnarþing

Varðandi viðskipti við okkur, sem og önnur atriði í samningsskilmálum þessum gilda íslensk lög. Rísi ágreiningur milli YAY og notanda skal mál vegna þess rekið fyrir íslenskum dómstólum.

Aðrar reglur varðandi lög og varnarþing geta átt við kortaskilmála sem að notandi samþykkir sérstaklega.

Villur og ábyrgð

Ef um sannanleg mistök er að ræða af hendi YAY verða slík mistök leiðrétt svo fljótt sem auðið er. Verði YAY fyrir tjóni vegna brota notanda gegn skilmálum þessum eða hvers kyns ásetnings- eða gáleysisverka notanda í tengslum við notkun á YAY appinu skal notandi bæta YAY það tjón samkvæmt almennum reglum um skaðabætur innan eða utan samninga. Undir ákvæði þetta falla einnig hvers kyns kröfur þriðja manns á hendur YAY vegna notkunar eða umgengni notanda við YAY appinu á grundvelli samnings þessa. Ef rangt símanúmer eða netfang þiggjanda gjafabréfsins hefur verið gefið upp er ábyrgðin þess sem gaf upplýsingarnar. Ef rangur þiggjandi hefur tekið á móti inneigninni á þeim tíma og inneignin innleyst, telst inneignin glötuð.

YAY ber ekki ábyrgð á að vinnsla í lausninni stöðvist tímabundið. Þá ber YAY enga ábyrgð á þeim vörum/þjónustu sem notandi greiðir fyrir með YAY appinu, þeirri færsluhirðingu sem á sér stað í tengslum við notkun YAY appsins, nákvæmni þeirra gagna sem berast frá söluaðila, eða annarra atvika sem tengjast þjónustu þriðju aðila eða atriðum sem notandi appsins ber sjálfur ábyrgð á samkvæmt skilmálum þessum. Það sama á við um ábyrgð á tjóni sem rekja má til sambandsleysis eða rofa á fjarskiptum. YAY ber í engu tilviki ábyrgð á öðru en beinu tjóni notanda vegna notkunar á hugbúnaðinum sjálfum.

Í öllum tilvikum skal ábyrgð Yay ehf., þ.á m. vegna hvers konar mistaka, villna, vanrækslu (svo sem í tengslum við öryggisráðstafanir), truflana, tafa, tjóns eða galla á lausninni, takmarkast við kr. 100.000, að því marki sem heimilt er á grundvelli ófrávíkjanlegra laga.

Óviðráðanlegar aðstæður (Force Majeure)

Hvorugur aðili skal teljast brotlegur gegn skilmálum þessum eða ábyrgur gagnvart hinum ef orsök er að rekja til atvika sem viðkomandi aðili hefur ekki á valdi sínu (óviðráðanleg atvik). Óviðráðanleg atvik í þessum skilningi eru m.a. en ekki einskorðuð við náttúruhamfarir, styrjaldir eða almennar óeirðir, aðgerðir opinberra aðila sem gera efndir ómögulegar, vinnudeilur o.þ.h. Hafi efndir verið útilokaðar af framangreindum sökum í 6 vikur eða lengur er hvorum aðila um sig heimilt að slíta samningi þessum með tilkynningu til gagnaðila sem gefin skal með 7 daga fyrirvara.

Breytingar á skilmálum

YAY er þjónusta sem er í stöðugri þróun. YAY áskilur sér því rétt að breyta ákvæðum þessara skilmála, enda verði notendum þjónustunnar tilkynnt í tölvupósti um allar breytingar á viðeigandi hátt með 10 daga fyrirvara. Breytingar þessar geta varðað vörur sem eru notaðar og virkni þeirra. Noti notandi þjónustuna að 10 daga fyrirvaranum liðnum verður litið svo á að hann hafi samþykkt skilmálana í breyttri mynd. Sætti notandi sig ekki við skilmálana eftir breytingu skal hann hætta notkun þjónustunnar án tafar.

Persónuupplý­singar

Persónuverndarstefna YAY er aðgengileg á www.yaymoments.com. Í henni kemur fram hvernig YAY umgengst þær persónuupplýsingar sem YAY geymir um notanda og hvaða réttindi hann hefur varðandi upplýsingarnar.

Kortaskilmálar

Sérstakir kortaskilmálar geta átt við eftir því á hvaða svæði notandi er staðsettur. Þessi skilmálar verða kynntir og samþykktir sérstaklega í YAY appinu og eru ávallt aðgengilegir á www.yaymoments.com.

Innlausn

Í ákveðnum tilvikum getur notandi óskað eftir innlausn gjafabréfsins (eins og fram kemur í kortaskilmálunum) með því að hafa samband við info@yay.com. Notanda er óheimilt að nota gjafabréfið eftir að hafa óskað eftir endurgreiðslu.

Gjöld

Notandi getur óskað eftir því að breyta YAY gjafabréfi sínu sem upphaflega var einungis hægt að nota með strikamerki þannig að hægt sé að borga með rafrænu greiðslukorti.

Gjald vegna breytingar á greiðslumáta: 200 kr.